top of page

Hljómsveitir

Að jafnaði starfa þrjár til fjórar hljómsveitir innan skólans sem hafa fastann vikulegan æfingatíma

Skólahljómsveit Tónlistarskóla
Grundarfjarðar

 

Þeir Þórður Guðmundsson og Baldur Orri Rafnsson stofnuðu á vorönn 2006 Skólahljómsveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar en vísir að henni hafði myndast á haustönn 2005 eða fyrir jólatónleika sem þá voru haldnir í desember.Skólahljómsveitin er flaggskip skólans en aðeins framúrskarandi nemendur og þeir sem lengst eru komnir í námi eiga kost á inngöngu í hana. Að jafnaði eru á bilinu 10 til 14 manns sem leika með sveitinni og þar af tveir kennarar. Iðulega eru fengnir til liðs við hana ungir og upprennandi söngvarar, ýmist nemendur úr skólanum sjálfum eða utan hans. Við höfum lagt metnað okkar í það m.a. að finna nýja efnilega söngvara og gefa þeim tækifæri til að koma fram með hljómsveitinni.Hljómsveitin leikur rytmíska tónlist úr ólíkum áttum og gerðar eru kröfur til meðlima um fagmennsku og nákvæmni. Hver og einn hljóðfæraleikari þarf að kljást við erfið og krefjandi verkefni en öðlast við það mikla og góða reynslu og þekkingu sem færir honum jafnframt sjálfstraust og ánægju.Skólahljómsveitin kemur fram við alla helstu viðburði sem fram fara á vegum skólans og hefur hún hlotið mikið lof fyrir frammistöðu og fagmennsku.

 

Útsetningar & hljómsveitarstjórn: Þórður Guðmundsson skólastjóri.

 

Lúðrasveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Lúðrasveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar var fyrst stofnuð haustið 1985 og starfaði þá í u.þ.b. 3 ár. Nokkuð hlé varð á starfi sveitarinnar eftir það en hún var síðan endurvakin árið 1995 og starfaði þá í um 2 ár. Eftir u.þ.b. 11 ára hlé, eða í janúar 2008 var hún endurvakin enn á ný af núverandi stjórnanda og voru þá 13 börn sem hófu starfið undir hans stjórn.Nú þegar þetta er ritað, í desember 2008, eru meðlimir sveitarinnar 18 talsins og hafa þeir verið duglegir við að koma fram í vetur og spila fyrir bæjarbúa. Markmiðið er að fjölga meðlimum Lúðrasveitarinnar enn frekar á komandi misserum.Lúðrasveitir hafa löngum verið taldar félagslega þroskandi vettvangur fyrir börn, þar sem áhersla er lögð á samspil og samheldni nemenda, enda er slagorð sveitarinnar „Ein Lúðrasveit, Einn hópur“. Með þátttöku í lúðrasveit öðlast börnin mikla reynslu og með slíku starfi fá þau t.a.m. þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum, öðlast aukið sjálfsöryggi og aga.Æfingabúðir eru reglulegur þáttur í starfi lúðrasveitarinnar, eða einu sinni á önn, sem eru bæði staðbundnar en einnig er farið út fyrir heimabæinn og æft annarsstaðar. Svo eru ferðalög tíð í starfsumhverfi skólalúðrasveitar og má þar nefna Landsmót Skólalúðrasveita, tónleikaferðalög og heimsóknir til annarra lúðrasveita.

Hljómsveitarstjóri: Baldur Orri Rafnsson Tónlistarkennari

 

Junior Band

Junior Band er samspilshópur yngri nemenda skólans og er skipaður nemendum sem hafa tilskylda getu og undirstöðukunnáttu á sín hljóðfæri. Hópurinn kemur saman vikulega og tekst á við rytmíska tónlist úr ólíkum áttum. Markmiðið með þessu samspili er að nemendur öðlist sem fyrst reynslu af að spila ólíkar tegundir tónlistar og ekki síst reynslu sem meðspilarar.

Hljómsveitarstjóri: Sigurgeir Sigmundsson Tónlistarkennari

bottom of page