top of page

    
Hlutverk tónlistarskóla er að:


Stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, greina og skapa tónlist og
til að hlusta á tónlist og njóta hennar,
m.a. með því að þjálfa tóneyra þeirra
og einbeitingu, veita þeim fræðslu og auka færni á sviði hljóðfæraleiks, söngs
og tónfræðagreina.
Búa nemendur undir að geta iðkað tónlist upp á eigin spýtur
, m.a. með
því að veita undirstöðuþekkingu, efla sjálfsaga og sjálfstæð vinnubrögð nemenda,
jafnframt því að örva þá til að leika tónlist og syngja, bæði eina og
með öðrum.
Búa nemendur undir nám í tónlist og skyldum greinum á háskólastigi,
m.a. með því að veita þeim góða tæknilega tilsögn í hljóðfæraleik og söng,
markvissa þjálfun í tónfræðagreinum og tækifæri til að koma fram.
Stuðla að auknu tónlistarlífi, m.a. með því að hvetja til virkni nemenda og
kennara í almennu tónlistarlífi, með samvinnu við aðrar mennta- og menningarstofnanir
og samstarfi við listamenn.


Markmið tónlistarskóla


Meginmarkmið tónlistarskóla:
Meginmarkmið skiptast í þrjá flokka: uppeldisleg markmið, leikni-og skilningsmarkmið
og samfélagsleg markmið.
Uppeldisleg markmið stuðla að auknum tilfinningaþroska nemenda,
listrænum þroska, mótun viðhorfa, samvinnu og ögun.
Leikni- og skilningsmarkmið stuðla einkum að aukinni færni og þekkingu
nemenda.
Samfélagsleg markmið stuðla að þátttöku í fjölbreyttri mennta- og menningarstarfsemi.

 

Almennar skólareglur


1. Nemandi skal alltaf vera stundvís og mæta vel undirbúinn í tíma skv.
fyrirmælum kennara. Nám í tónlistarskóla er að stórum hluta byggt á heimanámi. Lágmarks æfingatími á dag er 20 mínútur og þarf nemandinn að geta æft sig í ró og næði.
Stuðningur heima fyrir er nauðsynlegur í tónlistarnáminu. Öll hvatning er góð og getur skipt sköpum í náminu. Samstarf foreldra og kennara er einnig mjög mik-ilvægt og er foreldrum alltaf óhætt að hafa samband við kennarann á skólatíma.

 

2. Nemendur skulu kappkosta að ganga vel um skólann sinn. Sé nemandi staðinn að óviðunandi umgengni eru forráðamenn hans skaðabótaskyldir. Einnig eru nemend-ur og forráðamenn þeirra ábyrgir fyrir hljóðfærum sem þeir leigja af skólanum.
 

3. Tilkynna skal forföll með eins góðum fyrirvara og unnt er. Skólinn endurgreiðir ekki skólagjöld vegna veikinda nema um slys eða alvarleg veikindi sé að ræða. Skal þá leggja fram vottorð frá lækni.
 

4. Ef nemandi mætir 15 mín. of seint í tíma skráist fjarvist. Ef mæting nemanda er slök er haft samband og samráð við foreldra um viðbrögð en sé mæting óviðunandi getur komið til þess að nemanda verði vísað úr skólanum.
 

5. Ef kennari veikist er alltaf reynt að ná sambandi við heimili eða vinnustað foreldra. Kennara er ekki skylt að bæta nemanda upp tíma sem falla niður vegna veikinda hans. Ef kennari er veikur lengur en eina viku er reynt að útvega forfallakennara eða bæta nemandanum það upp með einhverjum hætti.
 

6. Ætlast er til að nemendur fari úr skóm og yfirhöfnum í anddyri skólans. Gæta skal þess að skilja ekki eftir verðmæti í yfirhöfnunum. Einnig skal gæta þess að skilja ekki eftir hljóðfæri í anddyri eða á göngum skólans.
 

7. Nemendum er ekki heimilt að dvelja á kennaragangi, kaffistofu og í sal nema með leyfi og undir eftirliti kennara.
 

8. Nemendum er skylt að ganga hljóðlega um skólann og fara eftir fyrirmælum starfsmanna um umgengni.
 

9. Vilji nemandi koma fram utan skólans, en í nafni hans eða flytja þá tónlist sem unnið er með í náminu hverju sinni, er sjálfgefið að hann hafi samráð við kennara sinn.
 

10. Þegar óveður geisar þá er foreldrum í sjálfsvald sett hvort þeir sendi börn sín í skólann eða ekki.

Forskóli

Nemendur hefja námið 6 ára eða samtímis fyrsta bekk í

grunnskólanum. Markmið forskólakennslunnar er að búa
nemandann undir hljóðfæranám. Aðaláhersla er lögð á
grunn í nótna- og hrynlestri í gegnum söng, dans og leiki. Nemendur
þjálfa hrynmynstur og grunnfærni í tónfræði með notkun
skólahljóðfæra, líkama og raddar. Þætti sköpunar er sinnt með
verkefnum þar sem nemendur búa sjálfir til tónlist ýmist með
hljóðfærum eða hljóðum og með virkri hlustun er þjálfuð skynjun,
ýmist með munnlegri eða skriflegri tjáningu (myndum). Auk þess fá
nemendur hljóðfærakynningu á þeim hljóðfærum sem kennt er á í tónlistarskólanum,
auk stuttrar kynningu á bæði skólahljóðfærum (tréspil,
stafir, handtromma, tambórína), sem og annara hljóðfæra.

Píanó- orgel- og hljómborðsdeild
Það er nauðsynlegt að píanó eða hljómborð sé á heimili
þess barns sem ætlar í píanónám. Nemandi í heilu námi
mætir 2x30 mín. í viku til píanókennara síns í einkatíma (auk hóptíma í
tónfræði). Hann þarf að hafa aðstöðu og næði til þess að æfa sig daglega
heima, því mikilvægt er að hann nái að einbeita sér vel og hlusta.
Hvatning heima fyrir örvar alltaf barn í námi.
Píanónám er kennt eftir nýrri námskrá og tekur nemandi stigspróf
þegar tilsettum árangri er náð innan hvers áfanga fyrir sig. Börn eru
ólík og mismunandi hvað varðar hæfileika og þroska. Hver píanónemandi
er því einstakur og tileinkar sér námið á sínum hraða. Það er
val nemanda að læra á píanó, en krafa skólans er að hann leggi sig
fram og sýni framfarir í námi. Góð ástundun er lykill að áframhaldandi
námi.

 

 

Blásaradeild

Blásaradeild skiptist í tréblástursdeild og málmblástursdeild.
Í tréblástursdeild eru eftirtalin hljóðfæri,
þverflauta, klarínett, óbó, blokkflauta og saxófónn og í málmblástursdeild
eru kornett, trompet, horn, baritone horn, básúna og
túba.
Í blásaradeild tónlistarskóla Grundarfjarðar er boðið upp á nám í
áðurtöldum hljóðfærum. Mögulegt er að fá leigð hljóðfæri í skólanum
en æskilegast er að nemendur eignist hljóðfæri sem fyrst. Venjubundið
viðhald hljóðfæra er í höndum nemenda og eru þrif mjög mikilvæg
eftir hverja notkun hljóðfæris.

Tónlistarskóli Grundarfjarðar
Skólanámskrá
Veturinn 2013-2014

Slagverksdeild
Slagverksnám er mjög fjölþætt. Aragrúi hljóðfæra telst
til slagverks og kemur víðsvegar að úr heiminum.
Kennt er eftir klassískri og rytmískri námsskrá tónlistarskóla,
sjá má aðalnámsskrá tónlistarskóla á vef
menntamálaráðuneytis.
Aðallega er kennt á sneriltrommu og trommusett en einnig á afrískt og
suður amerískt slagverk og ásláttarhljómborð (klukkuspil og
víbrafónn). Ekki eru leigð út slagverkshljóðfæri frá tónlistarskólanum
og æskilegt er að nemendur eigi hljóðfæri (trommusett) heima fyrir. Til
að nám geti hafist á ásláttarhljóðfæri þarf nemandi að hafa líkamlega
burði til að valda auðveldlega trommukjuðum og algengt er að aldur
byrjenda sé 8 eða 9 ára.

 

 

Söngdeild
Röddin er hljóðfæri söngnemandans. Hún er hverjum og
einum gefin, hluti líkamans, einstök og óendurnýjanleg.
Einsöngsnám gerir um margt aðrar kröfur til nemenda en
nám á hljóðfæri, m.a. varðandi tungumál, framburð, túlkun
texta og leikræna túlkun. Leiðir að markmiðum geta verið
mismunandi og nemendur ólíkir. Þess vegna er uppbygging
námsins ætíð einstaklingsbundin og viðfangsefni breytileg.

Gítar- & bassadeild
Kennt er á klassískan-, þjóðlaga-, jass-, popp og rokk,- raf- og bassagítar. Lögð er áhersla á að nemandi öðist sem víðtækasta kunnáttu og þekkingu í nótnale-stri, hljómum og spuna. Stigs og áfangapróf eru samkvæmt aðalnámsskrá tónlistarskólanna.
Nám á gítar og bassa byggir eins og nám á önnur hljóðfæri að stórum hluta á heimanámi. Lágmarks æfingatími á dag er 20 mínútur.
Nemandinn þarf að eiga auk hljóðfæris, nótur, nótnastand, fótstól og taktmæli.

 

Tónfræðagreinar
Tónfræðagreinar eru nauðsynlegur þáttur í tónlistarnámi og allir nemendur
skyldugir til að sækja tíma í þeim greinum. Tónfræðagreinar
eru t.d. tónfræði, tónheyrn og hljómfræði og auka þær mjög á skilning
nemandans á hljóðfæranáminu og flýta mjög framförum hans.
Mikilvægt er að ljúka sömu stigum í tónfræði og hljóðfæranáminu.

Samspil
Samspil er skipulagt jafnóðum í hljóðfæranámi og er því
ætlað að þjálfa nemandann í samvinnu við aðra
hljóðfæraleikara. Nemendur eru valdir saman, tveir eða
fleiri eftir getu og aldri og þjálfaðir í samleik hver með
öðrum. Þrjár til fjórar hljómsveitir eru að jafnaði
starfandi í skólanum, skólahljómsveit, lúðrasveitir og juniorband.

 

Tónleikar
Tónleikar og tónlistarflutningur nemenda við ýmis
tækifæri er æskilegur. Tónlistarskólinn gerir kröfur til
nemenda sinna og heldur ekki tónleika nema að
nemendur séu sem best undir það búnir og hafi
eitthvað fram að færa. Fastir liðir í tónleikahaldi
skólans eru jólatónleikar og vortónleikar.

bottom of page