Tónlistarskóli Grundarfjarðar
Borgarbraut 19, 350 Grundarfirði Sími:430-8560 tonskoli@gfb.is
Stofnfundur tónlistarfélagsins í Grundarfirði var haldinn í safnaðarheimili kirkjunnar, fimmtudaginn 5. desember 1974, klukkan 21:00. Séra Jón Þorsteinsson setti fundinn fyrir hönd undirbúningsnefndar. Það voru 21 manns á fundinum. Á fundinum las sr. Jón drög að lögum um tónlistarfélag í Grundarfirði sem voru mjög lík þeim sem voru í Ólafsvík þar sem sr. Árni Bergur Sigurbjörnsson hafði látið undirbúningsnefndina fá ýmis gögn. Fundurinn samþykkti samhljóða að stofna tónlistarfélag í Grundarfirði. Lög tónlistarfélagsins voru samþykkt, það eina sem vantaði var nafn á tónlistarfélagið og var ákveðið að bíða með það til framhaldsstofnfundar og voru fundarmenn beðnir um að koma með tillögur. Kosið var í stjórn félagsins og var sr. Jón Þorsteinsson kosinn formaður, Jensína Guðmundsdóttir gjaldkeri og Tryggvi Gunnarsson ritari. Einnig var rætt um að skólagjöld færu eftir styrkjum og til hliðsjónar væru skólagjöld við aðra skóla. Sr. Jón sagðist vera að bíða eftir svari frá menntamálaráðuneytinu og var hann bjartsýnn á að skólinn gæti hafist strax eftir áramót.
Framhaldsstofnfundur tónlistarfélagsins var haldinn 19. febrúar árið 1975 kl. 21:00 í safnaðarheimili kirkjunnar. Sr. Jón setti fundinn og sagði fundarmönnum að ráðning Kristínar hefði verið samþykkt. Næst var að ákveða nafn á félagið og komu upp ýmsar uppástungur t.d., þröstur, sólskríkjan, harpa og tónar. Eftir miklar vangaveltur urðu allir sammála um að félagið skyldi heita Tónlistarfélagið Tónar. Á fundinum kom upp sú hugmynd að halda tónleika og fá tónlistarmenn til Grundarfjarðar. Þessir tónleikar áttu að vera til þess að vekja upp áhuga á tónlist á meðal bæjarbúa og þar af leiðandi áhuga á tónlistarskóla. Þetta varð að veruleika 24. apríl 1975. Voru þessir tónleikar á vegum Kirkjukórs Grundarfjarðar og Tónlistarfélagsins Tóna. Á tónleikunum komu fram kirkjukórinn, Haukur Guðlaugsson lék einleik á orgel og hjónin Hjálmtýr Hjálmtýson og Margrét Matthíasdóttir sungu við undirleik Kristínar Jóhannesdóttur. Á þessum framhaldsstofnfundi var einnig rætt um hljóðfærakaup og nefndi formaður að hægt væri að fá styrk úr hljóðfærasjóði ríkisins. Hann var einmitt ætlaður til þess að styrkja hljóðfærakaup tónlistarskóla. Á fundinum bættust svo þrír í félagið og voru þá félagar orðnir 24.