top of page

Það var árið 1974 sem séra Magnús Guðmundsson lét af prestskap við Grundarfjarðarkirkju. Þá misstu Grundfirðingar ekki aðeins prestinn sinn heldur einnig organistann, því frú Áslaug Sigurbjörnsdóttir kona Magnúsar hafði verið organisti kirkjunnar. Í Grundarfjörð réðst þá séra Jón Þorsteinsson en organista vantaði og var enginn í byggðarlaginu sem treysti sér til að sinna slíku starfi eða hafði þekkingu til þess. Margir komu að því að aðstoða við organistastarfið og má þar nefna Níels Friðfinnsson og organista frá Stykkishólmi og Ólafsvík. Því var ljóst að söfnuðurinn varð að auglýsa eftir organista. Formaður sóknarnefndar Aðalsteinn Friðfinnsson hafði frétt að á bænum Jörfa í Kolbeinsstaðarhreppi væri stúlka, Kristín Jóhannesdóttir, sem var nýútskrifaður organisti frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hún kom og kannaði aðstæður og varð úr að hún var ráðin organisti frá ársbyrjun 1975. Starf organista var og er ekki fullur starfsvettvangur í svona litlu samfélagi var því ráðist í það að stofna tónlistarfélag sem átti að koma á fót tónlistarskóla í sveitinni. Það voru sr. Jón og kona hans hún Sigríður Anna sem börðust fyrir því að komið yrði á fót tónlistarskóla. Sóknarnefnd og sveitarstjórn skiptu á milli sín kostnaði við stöðu organista og skólastjóra tónlistarskólans.

1. Aðdragandi stofnunar Tónlistarskóla Grundarfjarðar

bottom of page